Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Opnaði Ferðaþjónustuvikuna 2024

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, opnaði í dag formlega ferðaþjónustuvikuna 2024 með ávarpi á Nýársmálastofu SAF, Íslenska ferðaklasans og KPMG.

„Hlutur ferðaþjónustu af útflutningstekjum þjóðarbúsins er nú um 35% sem sýnir mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir rekstur ríkisins og lífskjör fólks í landinu. En við vitum líka að þessi atvinnugrein er viðkvæm fyrir utanaðkomandi áhrifum,“ sagði ráðherra meðal annars í ávarpi sínu. Nefndi hún þar heimsfaraldurinn og jarðhræringar á Reykjanesi í því samhengi.

Samkvæmt nýjustu spám sem Ferðamálastofa kynnti í síðustu viku munu rúmlega 2,4 milljónir erlendra ferðamanna sækja landið heim í ár og fjöldinn mun aukast á komandi árum. Það eru gríðarleg tækifæri til að þróa ferðaþjónustu áfram til að gera samfélagið okkar enn betra. Íslensk ferðaþjónusta er ung atvinnugrein sem þarf að hlúa að. Við þurfum að halda áfram að byggja hana upp.

„Við þurfum að horfast í augu við það að auknum fjölda fylgja áskoranir sem við þurfum að takast á við í sameiningu. Þessari fjölgun fylgja einnig spennandi tækifæri,“ sagði ráðherra einnig í ávarpi sínu.“

Frá því síðasta vor hafa um hundrað manns komið beint að gerð aðgerðaáætlunar fyrir ferðaþjónustustefnu til 2030 í sjö starfshópum. Þar fyrir utan hafa fjölmargir aðrir komið að vinnunni í gegnum viðamikið samráð sem hefur átt sér stað. Vinna við aðgerðaáætlun er á lokametrunum og stefnt að því að leggja aðgerðaáætlunina, ásamt Ferðamálastefnu 2030, fram á Alþingi fyrir lok febrúar sem tillögu til þingsályktunar.

Á viðburðinum í dag var meðal annars farið yfir niðurstöður úr viðhorfskönnun meðal ferðaþjónustuaðila, rætt um hæfni og þjálfun starfsfólks í ferðaþjónustu og skyggnst inn í framtíðina.

Ferðaþjónustuvikan fer fram 16.-18. janúar. Vikan nær hápunkti á ferðaþjónustudeginum 18. janúar en þar fer fram viðburðurinn Mannamót í Kórnum í Kópavogi. Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er árleg ferðakaupstefna sem haldin er af Markaðsstofum landshlutanna. Mannamót markaðsstofanna er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni.

Í ferðaþjónustuvikunni verður lögð áhersla á að auka vitund um mikilvægi ferðaþjónustu og efla samstarf og fagmennsku í greininni með fróðlegri og skemmtilegri dagskrá undir merkjum Ferðaþjónustuvikunnar. Aðstandendur Ferðaþjónustuvikunnar eru Markaðsstofur landshlutanna, Íslenski ferðaklasinn, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Íslandsstofa.

Sjá einnig:

Upptaka frá viðburðinum

Ferðaþjónustan á nýju ári - Viðhorfskönnun 2024

  • Opnaði Ferðaþjónustuvikuna 2024  - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum